< : Yfirlit Orða : Hugamyndir : Yfirlit : Woc : >

Niðurtalning til stríðs
ort stuttu fyrir upphaf stríðsins í Írak
Þetta ljóð er tileinkað öllum börnunum sem hafa verið myrt í Írak, í þágu þessa glórulausa stríðs.

draumar mínir eru nú fylltir
líkömum dauðra barna
sem munu hrannast upp fyrir botni miðjarðarhafs
ég sé bros þeirra
framtíð þeirra
sem hefði getað orðið
ég sé brostin hjörtu mæðra og feðra þeirra
og ég græt meðan ég sef

meðan ég vaki
sé ég fyrirsagnir

niðurtalning til Íraks

hver á fjölmiðlana
hver á flugskeytin
hver vill drepa fleiri börn
fyrir olíu
fyrir græðgi
fyrir land
fyrir hina útvöldu
hverjir eru hinir útvöldu

eru þeir ég
eru þeir þú

hvernig get ég tilheyrt mannkyni
sem fagnar stríði
eins og það sé nýjasta stjörnustríðsmyndin
veruleika firrt
þau senda jafnvel börnin sín í stríð
í nafni frelsis
sem þau hafa aldrei þekkt
en telja sig þurfa að vernda

hvernig get ég lifað með sjálfri mér
vitandi að ég stóð aðeins hjá
og gerði ekkert
sekur er sá sem ekkert gerir
samþykkir öll voðaverkin
með þögn sinni

og heimurinn fellur í hyldýpi myrkurs
dýpra með degi hverjum

hvar eru hetjurnar

þorum við að fórna einhverju fyrir
þjáningarbræður og systur okkar
þorum við
að vera hetjur
og ekki bara sitja hjá
á meðan byssukúlum og flugskeytum
rigna yfir börnin í Palestínu
á meðan börnin í Afganistan
deyja eins og flugur enn einn veturinn
á meðan börnin í Írak bíða
með ótta í hjörtum
um hvað gerist næst

getum við virkilega sofið
án þess að sjá lík þeirra
hrannast upp í draumum okkar
augun, brosin
sem munu
verða ei meir
þorum við
að vera hetjur
að vera hugrökk

eða munum við horfa
í sinnuleysi á heim
okkar verða krossfestan í helgreipar óttans

valið hefur aldrei verið
skýrara
hvað ætlar þú að velja