< : Yfirlit Orða : Hugamyndir : Yfirlit : Woc : >

Kræklóttu trén í borginni

Geng um göturnar sem ég þekki svo vel.
Hugsa um tré.
Hef þekkt mörg borgartré.

Það er með trega að ég kasta á þau kveðju.
Þau eru ekki klædd neinu
nema mjúkum berki
og oddhvössum greinum.

Ég þrái ekki vorið.
Finnst þau falleg
svona nakin,
berskjölduð í styrk sínum.

Kræklóttu trén bera vitni um
hvernig mótlæti mótar.
Þarna standa þau
sérstæð og einstök
á meðal teinréttra
sem gleymast fljótt.

Það eru þessi kræklóttu tré sem
ég veit að ég mun sakna
þegar ég hverf á heimsenda.
Sérstæðir kvistir
sem aldrei hafa brotnað,
þrátt fyrir Reykvískan
mótvindinn úr öllum áttum.

Ræturnar teygja sig jafn langt
og krónan um iður jarðar.
Ég krafsa í raka mold
lykta af henni,
bý til minningu.
Nudda henni í hringi um lófa minn.

Það eru þessi kræklóttu tré sem ég
veit að ég mun sakna mest.