ÆVINTÝRI FRÁ ÞINGSÖLUM HULDUFÓLKSINS
Sagan um Hring og drauma hans
Hringur kom frá ofurvenjulegu millistéttarheimili í úthverfum Reykjavíkur. Faðir hans og móðir voru dæmigerðir vinnuþjarkar á framabraut. Hringur var einbirni, hálfgert slys. Hann var ekki með í fimmtán ára planinu. Þess vegna fundu foreldrar hans lítinn tíma til að sinna honum. Hann gat látið sig hverfa svo dögum skipti án þess að nokkur hefði orð á því.
Hringur nærðist á þögninni sem óf sig um heimili hans. Glæsilegt raðhús sem enginn hafði tíma til að vera í. Af forvitninni sem fæðist í slíku andrúmi fann hann bókstafi og drauma. Hann horfði á stafina breytast í myndir og hver punktur öðlaðist sjálfstætt líf. Hann tók stafi af handahófi og spann upp heilar kvikmyndir með draumana sem dýpt og fyllingu. Hann gat setið tímum saman við þessa iðju og ímyndunarafl hans efldist og styrktist. Hann fann kjarna sinn þéttast. Hann lærði að gleðjast yfir smæstu hlutum og hann öðlaðist undraverðan styrk gagnvart lífinu. Hann skildi mikilvægi þess að allt væri í jafnvægi.
Á hverjum degi spruttu í augum hans nýir draumar, nýir litir. Draumfarir hans urðu stöðugt sterkari og magnaðri. Hann dreymdi sífellt oftar um undarlegt fólk með andlit full af angist. Hann hélt á stað einn sólríkan dag og fylgdi fingrum skýjanna sem voru mjóar rákir á himninum. Hann gekk óralengi og undi sér engrar hvíldar. Fætur hans urðu blöðróttir og sárir. En nýbrumið sefaði sársaukann. Hann nam ekki staðar fyrr en komin var niðdimm nótt.
Hann lagði sig örmagna í faðm fjalls og sofnaði djúpt við drynjandi hjartslátt þess. Sömu draumarnir komu til hans en nú voru verurnar skýrari. Er hann brá blundi gein við honum stórfengleg sýn. Fyrir neðan hann var geigvænlegt og magnað gljúfur. Þrír fjallháir fossar mynduðu tónafljót og bjartar raddir frá bláklæddum verum kitluðu skyn hans. Hann greip andann á lofti því þetta voru sömu verurnar og hann hafði séð svo oft í draumunum.
Hann skimaði í kringum sig og tók nú eftir að hann lá á mjúkum mosafleti á syllu sem var fyrir miðju gljúfursins. Fyrir framan hann höfðu hendur móður náttúru skorið út háa mynd í bergið og litað af kostgæfni með gróðri. Þetta var mynd af Sunnu og mörg þúsund geislum hennar. Hver geisli hafði andlit höggvið í sig. Yfirbragð þessa listaverks breyttist stöðugt, því úði fossanna vökvaði það eftir duttlungum vindsins. Svalir höfðu myndast fyrir neðan sólarmyndina og þar stóðu tuttugu og tvær verur í skrautlegum hempum. Mikið drifhvítt hár bylgjaðist í mildum vindinum. Það var sem hárið fangaði dropa frá fossunum og breytti þeim í demanta sem hrundu í haugum við fætur þeirra. Hringur nuddaði augun, kreisti þau, andaði djúpt, opnaði, lokaði, hægt, hratt. Hann dreymdi ekki lengur. Tilfinning fagnaðar fyllti hann.
Allt í einu beindust fjörutíu og fjögur augu að honum, blá eins og óskavatnið. Það var sem öll veröldin lýstist upp. Verurnar sendu frá sér svo sterka ljósstrauma að þeir voru næstum sjáanlegir. Þeir ófust um hann og báru hann yfir gljúfrið. Fyrr en varði fann hann sig mitt á meðal þeirra. Þær virtust brothættar en þó stafaði frá þeim óhagganlegur styrkur. Þær gældu við hann og hvísluðu gæðayrðum til eyru hans. Honum til undrunar skildi hann tungu þeirra. Tungumálið var íslenska, þó fornara afbrigði en hann átti að venjast. Hann kom sér fyrir á steini og verurnar settust í kringum hann. Svo tók ein þeirra til máls og sagði sögu sem snertir okkur öll.
"Við urðum til vegna drauma manna og trú þeirra á þá. Við mótuðumst hægt og þétt og urðum með tímanum að stærsta hluta þjóðtrúar ykkar. Þá bjuggum við í hverjum hól og í hverjum steini. Þá voru flestar meyjarnar mittismjóar með gullna lokka. Gumarnir voru með traust augu, fíngerðir með töfrahendur. Á hverju heimili var ættfaðirinn blanda af seiðmanni og heimsspekingi sem átti ráð undir rifi hverju. Mennirnir kölluðu okkur huldufólk og báru ótæmandi traust til okkar og óttablandna virðingu fyrir menningu okkar. Þeir komu ævinlega í draumum sínum til okkar ef vanda bar á hendur. Þá voru vandamálin flókin á annan hátt. Einfaldara var að greiða braut þeirra því óskirnar voru fábrotnar og hreinar. Árin liðu í friði og spekt uns við fundum að mynd okkar tók að dofna með ógnarhraða. Við fundum að draumar þeirra tóku að beinast að einum punkti sunnarlega á þessu víðáttumikla landi. Það var sem allt tvístraðist og í stað straumsins sterka voru mörg þúsund kraftlausar draumslitrur. Óskir þeirra urðu að einhverju sem okkur var aldrei ætlað að fylla. Óskir um tíma. En við getum ekki skapað það sem þegar er til. Tíminn er uppspretta í hverjum manni sem hann mótar sjálfur. Mennirnir virtust aðeins þrá það sem þeir þegar áttu.
Við gátum ekki fylgt þessum miklu breytingum sem áttu sér stað. Þess vegna gleymdumst við og hættum að mótast í takt við tímann. Draumar manna eru lífsnæring okkar. Nú er svo komið að menn hafa ekki tíma til að dreyma. Þeir eru taldir geðþeyttir sem dreyma í vöku eða svefni. Lyfjum er dælt í þá, draumunum tortímt. Við erum því hægt og sígandi að deyja út og margur hóllinn hefur lagst í eyði. Við fundum í draumum þínum, Hringur, heilsteyptar tærar myndir. Þess vegna kölluðum við þig til okkar. Þú hefur ekki kæft eðli þitt, heldur styrkt það markvisst án þess að vita um tilganginn með því. Þú getur þakkað vinkonu þinni Einveru og gnógt tímans sem þú aldrei reyndir að myrða.
Nú er komið að okkur að bera fram eina ósk sem þér ætti að vera auðvelt að fylla. Eina ósk til að bjarga lífvana samfélagi okkar. Dreymdu Hringur. Leyfðu þrám þínum að leika lausum í draumunum. Vertu óhræddur við að biðja um hjálp okkar. Dreymdu okkur í tímans takti og þá getum við ef til vill hjálpað hinum líka. Því til þess erum við sköpuð. Dreymdu Hringur. Með von og lífsseiglu höfum við sett mynd hvers og eins okkar sem horfið hafa í geisla Sunnu og aðeins draumar þínir geta leyst þau úr læðingi. Dreymdu kæri drengur, dreymdu. Við munum vefja gullþráð um hjarta þitt og brosandi blómum í auga þitt í þakkarskyni."
Hringur tók vel í þetta, hélt léttur í spori heim með lífssarpinn fylltan tilgangi og brosandi augu. Hann er þegar tekinn að dreyma vini sína og mynd þeirra tekin að skýrast.
< : Yfirlit Orða : Hugamyndir : Yfirlit : Woc : >
|