< : Yfirlit Orða : Hugamyndir : Yfirlit : Woc : >


AFMÆLI OG VOR

Í dag er vor. Ég finn það með öllum skynfærunum. Það sem var svo óraunverulegt þegar drunginn sat í hásæti sínu kviknar til lífs og verður áþreifanlegt. Meðan ég geng finn ég vorið lifna við inni í mér. Ég hækka í lofti og rétti úr mér því hjarta mitt er fyllt gleði. Drunginn þungi lekur niður þreytulega og liggur sem hamur á veginum. Ég lít ekki til baka, finn bara þegar álögunum er létt.

Í dag á ég afmæli. Þá er þessi dagur minn og ég má gera hvað sem er. Ætla að fá mér bragmikla súkkulaðiköku með skærgrænum marsipan froskum. Svo ætla ég að prófa að vera lifandi í hverju andartaki, ekki hugsa um neitt nema það sem er núna.

Ég geng þétt við gamla kirkjugarðinn og trén dansa mjúklega við vindinn. Ég legg við hlustir og heyri þægilegan þyt, hljóð bílanna verða sem annarleg tónlist. Ég sé sárin sem veturinn hjó í náttúru borgarinnar. Göturnar eru þaktar djúpum undum og lítil ruslafjöll blasa við. En því lengra sem ég geng grænkar grasið meira. Ilmurinn er breytilegur. Þykk ský stíga frá götunum en ég dreg samt andann djúpt inn. Ég umbreytist í vorfugl og flögra yfir höfðum mannanna. Ég þrái að syngja gleði í brjóst þeirra því mitt er svo yfirþyrmandi fullt af birtu að ég verð að hleypa henni út með því að syngja. En þeir heyra ekki. Arka bara sinnulausir og fylla hugann áhyggjum og trega.

Ég flögra heim og sest inn í helliskima heimilisins. Ég finn brjóstið dragast saman og raddir drungans fylla loftið. Ég skelli upp varnarveggnum og kæfi raddirnar með vorþreki mínu. Ég opna alla glugga upp á gátt og hleypi ljósinu inn. Ég fylli herbergið minningum um söngfugla og öllum fallegustu myndum sem ég get fundið inni í mér. Drunginn silast út og ég sé að honum er smán af því að vera innan um gleðina. Ég kasta ekki kveðju á hann. Brosi aðeins og læt aftur augun.

Ég er full af skapandi kyrrð.