< : Yfirlit Orða : Hugamyndir : Yfirlit : Woc : >


Gleym mér ei

Hún stóð ofarlega í bústinni hlíð. Kúlulaga hús með lit himinhvolfs var á bak við hana. Vindurinn strauk þykkt svart hárið. Nokkrir rauðir ástríðufuglar höfðu gert þar hreiður og hvísluðu kitlandi tónum í sinnið. Hún var í kjól ofnum úr birtunni. Hann vafði sig um heitt hvítt hörundið. Augu hennar hvikuðu ekki frá auga Ægis. Leitandi, spyrjandi. Fyllt bliki vonar. Söngur fuglanna æstist og þrálátt heyrði hún mynd hans.

Báturinn kom tómur í dag eins og alla daga. Fylltur augum með röngum lit. Hún mundi ekkert, ekkert nema augun og nið þagnar hans. Söngur fuglanna hafði breyst í angistarfulla skræki og andvörp. Hún gekk inn í kúluna. Féll á hnén fyrir miðju gólfsins. Fannst sem úr blæðandi sárinu yltu nú beiskir vessar og kæfandi lykt hans. Breiddi úr sér á gólfinu og horfði í hillinguna, í botnlaust tómið. Ófyllanlegt tóm. Þráhyggjan hafði mótað hjartað. Kallaði hálfhátt á hann, hrópaði. Öskraði. Uns röddin sökk inn í húmið. Hún hrökk upp við þögnina. Ekkert hljóð nema vein fuglanna. Hún stóð upp og ráfaði hring eftir hring, hún fann enga útgönguleið. Hún skall á ofsafenginn ótta veggjanna og andardráttur einmannaleikans vó salt í vitum hennar.

Hún var komin aftur að kjarna kúlunnar, nú með hárbeittan rýting. Stundin var komin að hún félli í faðm uppgjafar og vonaði að dauðinn væri ekki eins kveljandi tómur og lífið. Mynd hans var horfin. Meðan hún dofnaði hægt rann allur blái liturinn út úr henni. Mundaði hnífinn bein stíf köld dofin hrædd. Hann nam nú við líflítið hjartað. Krampakenndur skjálfti flaut um hana meðan kvikmynd lífsins rann hratt í gegn eins og plata á röngum snúningi.

Rödd braut upp andartakið, smaug inn og reif upp myrkrið. Flauelsdrengurinn stóð við enda lífsins eins og maðurinn með ljáinn, nema að í höndum hans hvíldi ástin. Hún varð þyngri en blý og liðamótin voru sem lömuð. Tungan bundin en hver taug var spenntari, næmari en nokkru sinni fyrr. Hann tók hönd hennar og lagði höfuð hennar í kjöltu sér. Sleppti fuglunum lausum úr hári hennar. Opnaði hjartað og lagði djúpbláan lit sinn þar. Hann strauk augun og varirnar. Kyssti líf í andlitið.

Var hann handan við þetta líf eða holdgerð draumsýn ofin úr væntingum þrálátrar kenndar?

Tíminn óf sig um þau og breytti þeim í marglitan stein sem molnaði á lífsins ströndum.