Ákall til frumafla
Ég svíf upp úr holdi mínu
hratt eins og elding.
Finn mig flögrandi eins og haukur
um tímagöt og litla alheima.
Þor mitt er engum takmörkunum háð
og hinn mikli háski nútíðar virðist
hjákátlega smár og einfaldur.
Ég renn úr yfirsýninni beint
inn í líkamann sem virðist sofandi.
Vakna ein,
finn háskann anda á mig
römmum andarsogum.
Hleyp út og leggst á grúfu
í mosahár móður minnar.
Styn eins og hrætt barn.
Ég gefst upp,
ég finn smæð mína,
hvísla, "vilji þinn er vilji min"
án þess þó að vera viss hver þessi vilji er.
Hrópa, "sýndu mér ásjónu þína,
svo ég fái skilið,
trúað
á tilvist þína.
Segðu mér að ég sé ekki
sturluð í hugarleikjum mínum."
Mosahárið vefst um mig
og ég er mosi þinn,
mjúk og rök.
Ég sekk inn í þig.
Þú sekkur inn í mig.
Við erum samlita
ásjóna þín er svo björt
að allt annað missir skerpu sína.
|