< : Yfirlit Orða : Hugamyndir : Yfirlit : Woc : >


Fæðing í framandi heimi

Bumban mín var svo stór
að ég valt næstum um
þegar ég kjagaði í sumarblíðunni
og lét skína í magann
Kerlingarnar sem ég mætti
á leið minni um garðinn
settu á sig hneykslissvip
eins og það mætti ekki
sjást í bumbur í borginni
aðeins slétta maga á ströndinni

Höfrungurinn sem gat sig ekki
lengur hrært í maganum
vildi ekki koma út
hann var komin langt fram yfir
umsaminn tíma

Páfagaukur sem slysaðist inn um bílrúðuna
gerði mér svo bilt við
þegar hann flögraði trylltur í kjöltu mér
að meira segja höfrungabarnið
vaknaði af værum blundi

Ég sat í stóru kringlóttu baðkari
Spítalinn hljóður
enginn sjáanlegur nema
draumamaðurinn sem svaf
og hláturmilda ljósmóðirin

Ég las bók um Alkímista
meðan vatnið bylgjaðist í kringum mig

Fann varla fyrir hríðunum
vatnið var ilvolgt og mjúkt
Ég hugsaði
um svip barnsins
eyjuna mína og farfugla

Stökk svo upp úr vatninu
höfrungabarnið skaust
út úr farvegi sínum
og sveif í faðm minn
án átaka

Ég hvíslaði að honum
að hann gæti ég fætt
1000 sinnum
bara til að sjá þetta fyrsta augnlit