Sýningarskrá 1998 – Djúpt í málverkinu

Viðfangsefni málarans er ekki aðeins litir og form, þótt Kandinsky hafi á sínum tíma hvatt til að sinna ekki öðru. Málverk er ekki aðeins búið til úr afstrakt hugtökum og hreinum flötum, heldur er það líka efnislegt, þykkt og þungt eins og náttúran sjálf og er þannig ekki aðeins eftirmynd náttúrunnar eða umfjöllun um hana, heldur hluti hennar, hlutur meðal hluta.

Tilfinning fyrir þessari efniskennd málverksins – fyrir málverkinu sem veraldlegum hlut – gerir málaranum kleift að umgangast það sem eins konar tákn um veröldina, um náttúruna. Það er ekki hið óhlutbundna í málverkinu sem leyfir því að tákna aðra hluti, að vera einhvers konar formúla sem við getum lesið úr eitthvað um veröldina, heldur einmitt það að málarinn er alltaf  þá þegar að fást við sjálfa veröldina. Þegar hann setur lit á striga, dregur línu eða afmarkar flöt, er hann að skapa veröldina en ekki bara að segja eitthvað um hana. Afstaða hans til málverksins sem hann er að mála er þannig um leið afstaða til veraldarinnar.

Margrét Sveinsdóttir dregur þessa efniskennd skýrt fram í málverkum sínum, ekki síst með því að gera þau þykk,  að hlaða upp málningu á strigann svo úr verður þung yfirborð þar sem áferð og form verða eitt og liturinn verður að þrívídd.

Munstrin á verkum hennar – symmetrísk endurtekning sömu forma og lita – undirstrika enn frekar tilfinningu hennar fyrir tengslum málverksins og náttúrunnar, jafnvel þótt formin endurspegli ekki náttúruleg form. Það er ekki endurgerð náttúrunnar sem hér birtist, heldur nær málverkið að vera sjálft eins konar náttúruundur sem Margrét afmarkar og “pakkar inn” í verkinu.

Um leið lýsir verkið skýrri afstöðu Margrétar til málverksins, hlutverks þess og sambands þess við veröldina. Munstraða fleti hennar og uppbyggða litflekkina má líta á sem tilraun til að róa og einfalda viðfangsefnið – til að búa til umgjörð sem útilokar truflun og gerir okkur kleift að takast á við veröld okkar sjálfra eins og listamaðurinn hefur gert: með hreina striga og tæra liti.

Aðferðirnar og sú tækni sem Margrét beitir eru að sjálfsögðu ekki sprottin af engu, heldur mætti rekja þróun þeirra aftur gegnum listasöguna, jafnvel aftur til þeirra Manet og Cézanne; úrvinnsla á efniskennd málverksins og hlutveruleika þess hefur verið eitt helsta viðfangsefni nútímalistarinnar. En upprifjun af því tagi á hér ekkert erindi til okkar því  það er úrvinnsla hvers málara fyrir sig sem skiptir máli, hvernig hann gerir rannsóknarefni sem skiptir máli,  hvernig hann gerir rannsóknarefni sögunnar að sínum og tekst að vinna úr þeim persónulega sýn, bæði á veröldina og á tilgang málverksins. Það verkefni málarans verður auðvitað aldrei lokið, en verk Margrétar Sveinsdóttur sýna að henni miðar vel á veg.

Jón Proppé


<< Fyrri -
Næsta >>