Gagnrýni: Morgunblaðið, 1996

NÚTÍMALISTAMÖNNUM sem fást við tvívíðan flöt og liti, sem eru hinir sígildu miðlar málaralistarinnar, er gjarnt að vilja þrengja sér inn í sjálfan kjarnann. Það er að segja líkama og hold miðlanna, efnið sjálft sem málað er á og litina handa á milli. Þetta gera þeir gjarnan með því að leita hreinleikans í þeim og vinna í einsleitum blæbrigðum um leið og þeir leggja áherslu á áferð efnisins, rífa gjarnan í grunnmálið til áréttingar þannig að áferðin verður hluti heildarinnar. Liturinn sjálfur verður sömuleiðis eitt með áferðinni ásamt hárfínum blæbrigðum hans, gjarnan með einhverjum áherslum, efnum og aðskotahlutum eða ýmsum tegundum bylgjuhreyfinga. Sjálft rými grunnmálsins er nýtt til hins ýtrasta og má þá jafnvel skilgreina athöfnina sem að frjóvga rýmið, - rýmisfrjóvgun. Þetta var iðkað af ýmsum listamönnum á sjötta og sjöunda áratugunum og þeir unnu gjarnan á einsleitan svartan flöt eða hvítan, sumir jafnvel í bronslitum svo sem Yves Klein og Lucino Fontana. Hinn síðarnefndi gerði gjarnan göt á flötinn eða skar í hann eftir endilöngu og nefndi “concetto spaziale” (rýmishugmyndir, rýmisuppköst).

Það er ósköp eðlilegt að málarar leiti aftur og aftur til efnisins handa á milli og getur allt eins og öllu frekar verið niðurstaða rannsókna en bein áhrif. Fyrir unga í dag er miðbik aldarinnar löngu liðin fortíð sem margur gefur lítinn gaum. Þetta held ég að sé um þá sem vinna á þennan hátt hér á landi og er Margrét Sveinsdóttir líkst til í þeim hópi. Í öllu falli er eitthvað upprunalegt í málverkum hennar, sem kemst þó naumast til skila á þessum stað, því dúkarnir þurfa vinalegra umhverfi og meiri upphafna mýkt í bakgrunninum. Hins vegar er framlag listakonunnar vert allrar athygli og ástæða til að fylgjast vel með henni í framtíðinni.

Bragi Ásgeirsson


<< Fyrri -
Næsta >>