Gagnrýni 1994 - Hreint og klárt – Gallerí I I   

Í Gallerí II við Skólavörðustíg 4 sýnir Margrét Sveinsdóttir olíumálverk sem hún kallar “Málverk”.

  Ef málarar hafa þann háttinn á, að gefa ekki verkum sínum nöfn sem lýsa viðfangsefninu, heldur kalla þau: Málverk, gefa þeir í skyn ákveðinn hreinleika. Málverk felst í málverkinu sjálfu. Það er allt í áferðinni og litunum, vísar inn á við til veruleika síns, athafnarinnar til þess að mála, fremur en frásagnar, lita eða forma. Þannig listaverk benda áhorfandanum ekki út fyrir myndflötinn svo hann geti stuðst við atburði í veruleikanum og fengið þar skýringu á efninu.
   Margrét Sveinsdóttir er myndhugsuður. Ekkert frásöguvert gerist í verkum hennar. Aftur á móti er þar fjölmargt túlkunarvert. Sá sem ætlar að nálgast þau ætti fremur að rýna í, anda þeim að sér, en horfa á þau. Þarna er ekki bara andrúmsloft litanna, heldur efnið í lit á lit ofan, lit sem liggur að baki annarra lita, lit sem er undir yfirborðslitnum.
  Þrátt fyrir það að höfuðáherslan sé lögð á blæinn, verður efnið mest áberandi við fyrstu sýn. Áhorfandinn gæti haldið að Margrét hefði verið að mála yfir gamlar myndir, vegna þess að hún hefði verið óánægð með þær, eða hún sé beinlínis að fela, gefa í skyn eða vekja löngun okkar til að hnýsast í það sem er fyrir hendi en liggur ekki í augum uppi.
  Hið líklega er efalaust ekki hið rétta. Málverkið er látið vera eðlilegt á sama hátt og náttúran. Svipað og hún getur það farið fram hjá áhorfandanum, listvininum eða þeim sem telur sig vera sérfræðing á sviði myndlistar. Slíkt er Málverkinu eðlilegt. Það leitar ekki einu sinni að kaupanda. Listakonan verðleggur ekki verk sín. Áhorfandinn verður að koma til þeirra og vera á móti þeim eða fylgjandi þeim.
  Að þessu leyti er trúarblærinn ekki langt frá innihaldinu. Eitt verkanna gaf trúna meira að segja í skyn. Á því er dreginn kross í ferhyrning. Jung fjallaði um það að krossinn sé innan vissara hefða tákn elds og þjáningar mannlegrar tilveru. Ég man ekki betur en í Tímeo eftir Platon hafi smiður heimsins fest aftur saman heimssálina með því að sauma rifurnar saman þannig að úr varð Andrésarkross X, crux decusata. Ég sé ekki betur en að sá kross sé í verkum hinnar ágætu Margrétar Sveinsdóttur. Þó kann hún að leggja aðra merkingu í hann en herra Jung.
  Kannski tæki hún heldur ekki undir með herra Hebbel sem sagði: Frá mínum bæjardyrum séð er höfuðtilgangurinn í lífinu að sýna minn innri á táknrænan hátt. Hvað sem því líður, ég eygði eitthvað svipað í aðferð Margrétar Sveinsdóttur. Þess vegna var hún unaður fyrir skynjunina og tilgátuna.

Guðbergur Bergsson


<< Fyrri -
Næsta >>