Gagnrýni: Morgunblaðið, 1998, Djúpt í málverkinu

DJÚPT í málverkinu er táknræn yfirskrift sýningar Margrétar Sveinsdóttur, því myndir hennar eru ekkert annað en hein og bein málverk. Með sínum þungu fyrirferðamiklu flekum, hefur Margrét skapað sér sérstöðu málara sinnar kynslóðar, á stundum eru þau sem einstóna þótt margir samkynja litir móti eina heild þegar betur er að gáð. Á stundum opnar hún flötinn eins og til að skoðandinn skynji að á bak við hinn þekjandi möttul leynast ólgandi frumkraftar, en þetta er einnig gert til þess að skapa líf á myndfleti, á stundum hreina og klára myndbyggingu eða reiðu í  óreiðu. Það eru fáir íslenzkir málarar sem ganga jafn hreint til verks varðandi hið efniskennda í sjálfu sér og vinnuferlið er mjög í anda þess er iðulega er nefnt peinture pura, hið algjöra og hreina málverk sem hefur á stundum losað sig frá öllum ytri einkennum, þannig að jafnvel strangflatarmálverkið, geometrían, og óformlega málverkið, art informel, verða að hlutlægum verukeika við hliðina á þeim.

Það er ekki neitt nýtt í málverkinu, hins vegar er það alltaf nýtt ef gerandinn hefur eitthvað til málanna að leggja frá eigin brjósti, líkt og að gott málverk er alltaf nýtt ef það ber í sér upplifaðan ferskleika, án tillits til þess hvað og hvernig málað er, eða hvort skiliríin séu “in” í núinu.

Hið stórgerða, foldgnáa og grófa er sem hluti persónu Margrétar, þrátt fyrir að frá henni sjálfri streymi mýkt, hógværð og lítillæti og voru mörkuð einkenni hennar frá fyrsta degi í skóla.

Eigi alls fyrir löngu átti listakonan sterka hluti í gangi Leifsstöðvar, og þeir einslitu og möttu flekar lyftu upp umhverfinu, tóku á móti gestum að utan sem hluti af möttli of fyrirferð eldlandsins, án þess að vera kortalagning þess, einungis málverk í sjálfu sér máluð af Íslendingi á Íslandi. En þótt flekar listakonunnar á veggjum listasafns Kópavogs séu í senn stórir og voldugir falla þeir naumast eins vel í umhverfið. Einhver óskilgreindur gljái er kominn á yfirborðið svo á stundum ber það svip glerungs frekar en olíulitar og þurfa flekarnir því mattari og afmarkaðri lýsingu en á þá fellur á staðnum og heildinni vill raska. Engu að síður eru þetta sterk verk og áhrifamikil og staðfesta styrk og stöðu Margrétar, sem er með báða fæturna kirfilega skorðaða djúpt í málverkinu.

Bragi Ásgeirsson


<< Fyrri -
Næsta >>