Sýningarskrá 2000 - Margrét Sveinsdóttir Málverk

Það er ákveðin himnastemmning yfir málverkum Margrétar Sverrisdóttur, líkt og hún hafi fangað skýin og hamið þau niður á striga, pakkað inn í lítil koddaver og hnýtt saman á hornunum svo þau mynda langar raðir. Þessi koddaver eru niðurstaðan — eða upphafspunkturinn? — af leik með form, þarsem hliðar ferhyrnings eru sveigðar mjúklega innávið, líkt og settar í sviga)( og síðan raðað saman út í hið óendanlega svo það myndast ferningar og hringir; mörkin milli þessara ólíku forma leysast upp og renna hvort inn í annað, ferningur sveigist í hring, og hringur er taminn í ferning og bæði formin leysast upp og brjótast út í endalausum síglöðum syrpum nýrra forma, nýrra mynstra, eins og gerist á einum flekanum, þar sem málingin virðist beinlínis taka á sig fljótandi form á ný, grafa sig niður í hringiður eða ýfast á vindrænum æsingi.

Á sama hátt og formfesta forma er gerð vafasöm er málverkið sjálft lagt undir, sem form. Verk Margrétar eru mál-verk í þeim skilningi að áherslan er ekki lögð á mynd eða ímynd, heldur er striginn og málningin sjálf uppistaðan í verkunum þykkir flekar — eða koddar — málningar sem þrýsta sér utan í strigann, eða líma sig á hann. Þannig er eins og verið sé að sporna gegn hugmyndinni um málverkið sem afrakstur andlegrar iðkunar, list á sínum háfleygasta og upphafnasta skilningi, þar sem næfurþunn ímyndin er eins og fljótandi spegilmynd eða hverful eftirlíking. Með því að smyrja þykkt, lag eftir lag af olíumálningu, á strigann skapast ákveðinn efnisleiki í málverkinu sem minnir á að málverkið er hlutur, efni, ekki síður en mynd eða eftirmynd. Málverk Margrétar hafa brotist út úr fleti myndarinnar, blásið sig upp af striganum og tekið á sig áþreifanleg form.

Og þessi form eru ekki bara áþreifanleg og “efnisleg” heldur eru þau efnisleg í svo ákaflega heimilislegum skilningi — en heimilið (“staður konunnar”) hefur löngum verið tákn efnisveruleikans — að því leyti sem þykk hvít málningin, og endalaus hringrás formanna, vekur upp hugrenningartengsl um það efni sem stendur okkur næst, línið. Stærstu og reglulegustu ferningarnir minna á hvítan óþveginn þvott úti á snúru, vandlega klemmdur niður og hálfrakur, bærist hann þunglega og skapar róandi tilfinningar óendaleikans, líka þeirri þegar gæsamamma hristir sængurnar sínar. Annarskonar heimilisiðnaður birtist í minni formum, þarsem gulur litur blandast þeim hvíta í fullkominni ímynd rjómatertunnar, brauðtertunnar: þetta er veisluhlaðborð fermingarveislunnar, girnilegt og glaðlegt, fimlega framreitt af gæsamömmu ævintýranna, sem hefur á einhvern ósegjanlegan hátt hefur pakkað krásunum inn, líkt og skýjum í kodda.

Yfir þessu öllu ríkir kyrrð og ákveðin ögun, lökin eru strekkt og slétt, rjómatopparnir glaðlegu frystir í hvítan marens á einum flekanum; yfir öllu hvílir einskonar himnesk ró. Málverkin eru eins og hjúpuð, eins og vafin eða umvafin; líkt og húsbúnaður hjúpaður hvítum lökum meðan heimilisfólkið er fjarri. Því í þessari ró býr eftirvænting, eða bið, eftir því að hjúpnum verði svipt í burt, að koddaverin opnist og út úr þeim flæði — málning? Efni. Þannig eru málningarkoddarnir, þrútnir af þrá eftir efnisverukeika málverksins, bústnir af stolti yfir eigin leik með efni.

En öll kerfi stefna ávalt að óreiðu og kyrrð hinna máluðu línlaka er viðkvæm. Um leið og litið er af þeim leitast þau við að hneppast í hnúta, vefja uppá sig og rjúfa þannig reglubundna röðunina. Undir hinu agaða yfirborði ólgar óreiðan og hótar að slíta sundur þéttsauma netið, vefinn eða vefnaðinn, gulu rjómakremtopparnir teygja sig hærra og hærra — en hjaðna um leið og litið er til með þeim. Það er næstum eins og bakvið agað mynstrið búi einhver ævintýravera í óreiðulíki, andstæða gæsamömmu, sem grípur báðum höndum um mynstrið og hristir það; kannski til að opna sér leið út?

Og mitt í rósemd hinna hjúpuðu flata eru þegar merki um upplausn: fyrir miðjum marengsflekanum hafa hnútarnir losnað og litlu koddarnir fullir af skýjum eru að taka sig á loft.

Úlfhildur Dagsdóttir


<< Fyrri - Næsta >>